Flotinn fastur í ís

Norræni skjaladagurinn 2018

Flotinn fastur í ís

Bátafloti Ísfirðinga fastur í ís á Pollinum í Skutulsfirði í ársbyrjun 1918. Lengst til hægri má sjá kútter Hans frá Stykkishólmi. Ljósm. M. Simson.

Bátafloti Ísfirðinga fastur í ís á Pollinum í Skutulsfirði í ársbyrjun 1918. Lengst til hægri má sjá kútter Hans frá Stykkishólmi. Ljósm. M. Simson.

 

Bátafloti Ísfirðinga lá fastur í ís á Pollinum frá 5. janúar til 16. febrúar 1918. Þar var einnig kútter Hans frá Stykkishólmi, eign verslunarinnar Leonhard Tang & Sön. Um borð var ungur maður að nafni Friðrik Salómonsson og segir hann svo frá komu hafíssins:

Nú gekk á suðvestanátt og þá er ákaflega slæmt að liggja inni á Pollinum á Ísafirði, og allir bátarnir, bæði Hans og aðrir, fóru út á Prestabugt og lögðust þar. […] Svo er það eitt kvöld, að suðaustanáttin er lögð að og komið logn og mikill kuldi. Við skildum ekkert í hvurning á þessu gæti staðið og vorum að bollaleggja um það. […] Þá tókum við eftir því að margir bátarnir settu í gang vélarnar og fóru inn á Pollinn. Skipstjórinn kom og sagði okkur að ísinn væri kominn inn undir Bolungarvík og við yrðum að fara inn á Poll, áður en hann kæmi. Við drógum upp akkerin og héldum af stað, þá var ísinn kominn inn undir Hnífsdal, við sáum þar í hvítt rekald, það voru engir stórir jakar, aðeins mulningur. Þegar við vorum tilbúnir að fara af Prestabugtinni, var seinasti báturinn kyrr. Við fórum til hans og þá var okkur sagt að vélin færi ekki í gang. Við biðum þar til hann var búinn að draga inn akkerin og drógum hann inn. Þá var ísinn alveg á eftir okkur, hann var kominn inn fyrir Norðurtangann. Svo lögðumst við inn á Pollinn og morguninn eftir var hann allur ísi lagður.

Pollurinn ísi lagður í ársbyrjun 1918, séð frá Kirkjubólshlíð. Ljósm. óþ.

Pollurinn ísi lagður í ársbyrjun 1918, séð frá Kirkjubólshlíð. Ljósm. óþ.

Eftir um þriggja vikna bið án þess að losnaði um bátana var ákveðið að stýrimaðurinn og Friðrik færu heim til Stykkishólms landleiðina. Urðu þeir samferða Jóhannesi Þórðarsyni pósti sem fór frá Ísafirði um Þorskafjarðarheiði og suður í Búðardal:

Um morguninn fórum við af stað út á ísinn úr Norðurtanganum og héldum áfram inn í Ögur. Ísinn var ósléttur. Þetta var mulningur og eins og hann væri í smáplötum, dældist stundum og sumsstaðar var bil á milli þessara ísjaka og þar var lagnaðarís. Úti á Djúpinu grillti aftur í stærri jaka. Pósturinn var tekinn á sleða og við skiptumst á að draga sleðana.

Upphaf ársins 1918 í minnisblöðum Bjarna Sigurðssonar, bónda í Vigur í Ísafjarðardjúpi, þar sem lýst er veðurfari og helstu atburðum.

Upphaf ársins 1918 í minnisblöðum Bjarna Sigurðssonar, bónda í Vigur í Ísafjarðardjúpi, þar sem lýst er veðurfari og helstu atburðum.

Heimild: Lesbók Morgunblaðsins 20. júlí 1969, s. 8-10.

 

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafninu Ísafirði.