Kartöfluræktarmenn á Garðskaga á fyrri stríðsárunum 1917-1918

Norræni skjaladagurinn 2018

Kartöfluræktarmenn á Garðskaga á fyrri stríðsárunum 1917-1918

Kartöfluræktarmenn á Garðskaga á fyrri stríðsárunum 1917-1918

Sitjandi frá vinstri: Björn Vigfússon á Gullberastöðum, Guðmundur Jónsson á Hvítárbakka og óþekktur. Standandi: Ármann Dalmannsson í Fíflholtum, Kristinn Guðmundsson á Skeljabrekku ytri og Hvanneyri, Pétur Þorsteinsson á Miðfossum, Magnús Jakobsson á Varmalæk og Kristófer Guðbrandsson á Kleppjárnsreykjum. Ljósmyndari: Carl Ólafsson.

 

Ljósmynd þessi af ungum Borgfirðingum og Mýramönnum er varðveitt á Héraðsskjalasafni Borgarfjarðar. Nöfn allra nema eins eru þekkt, nafn unga mannsins lengst til hægri í neðstu röð er óþekkt. Gaman væri ef einhver bæri kennsl á hann og kæmi þeim upplýsingum til safnsins.

En hvað voru ungir menn úr Borgarfirði að gera í kartöflurækt á Garðskaga í lok seinni heimstyrjaldarinnar? Skýringin var sú að víða í Evrópu var matarskortur og til ráða væri að allar þjóðir þyrftu að framleiða sem mest af nauðsynjum sínum sjálfar og þá fyrst og fremst með aukinni jarðyrkju. Íslensk stjórnvöld fylgdu þessu fordæmi og tóku stóra garðspildu til kartöfluræktar á Garðskaga á leigu og voru Borgfirðingarnir fengnir til að vinna verkið.

Í dagblaðinu Visir þann 9. júní 1918 segir eftirfarandi:

Landsstjórnin réðist í það i vor, að stofna til garðræktar í stórum stíl suður á Garðskaga. Og það lán fylgdi því fyrirtæki, að stjórninni hugkvæmdist að fela einmitt þeim manni framkvæmdirnar, sem til þess var sjálfkjörinn. En maðurinn er Einar Helgason, garðræktarráðunautur. Hefir nú verið unnið þar syðra af miklu kappi í vor. Verkstjóri er þar Guðmundur Jónsson frá Skeljabrekku, afkastamaður mikill við vinnu og heljarmenni að burðum. Hann smalaði fólki til vinnunnar um allan Borgarfjörð og er nú hérumbil búinn að rífa sundur allan Garðskagann. Hafa kartöflur þegar verið settar niður í 31 dagsláttur, en auk þess hafa 16 dagsláttur lands verið plægðar til næsta vors. Undrast menn þar um slóðir mjög hamfarir þessar, og finst það ekki líkt því að menskir menn hafi verið þar einir að verki og engin stjórnarhandbrögð sjást þar á neinu. En nú er eftir að vita, hvað náttúran vill gera fyrir þetta þarfa fyrirtæki. Verða menn að vona hið besta i því efni, úr því að svo langt er komið án þess að skakkafallafylgja stjórnarinnar hafi náð til þess.

Því miður varð uppskeran ekki eins mikil og góð eins og vonast var til og þann 30. desember 2018 birtist svohljóðandi frétt í Vísi:

Landsstjórnarakurinn á Garðskaga gaf einnig mjög lélega uppskeru, þó að uppskeruhorfur væru þar taldar allgóðar i sumar. Það er enginn vafi talinn á þvi, að þessi uppskerubrestur á Garðskaganum stafi að langmestu leyti af því, að útsæðið var lélegt. Allir vita, að við þann akur var unnið af mestu alúið og dugnaði. En útsæðið var hálfónýtt. Og i Brautarholti mun eins hafa verið ástatt. En langlélegast mun útsæði bæjarins hafa verið, enda mun það hafa verið úrgangurinn úr hinum svokölluðu útsæðiskartöflum, sem hingað voru fluttar í fyrra.

Leitt er að vita til þess að uppskeran varð léleg því gott hefði verið fyrir Íslendinga að fá nægar nýjar kartöflur til matar eftir allar þær hörmungar í formi sjúkdóma, kulda og eldgosa sem á þá dundu fullveldisárið 1918.

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafni Borgarfjarðar.