Látlausar frosthörkur

Norræni skjaladagurinn 2018

Látlausar frosthörkur

Á þessari mynd má sjá nokkra báta fasta í ís í Sundunum í Skutulsfirði, rétt við Suðurtangann

Þegar leið á janúar 1918 fóru skipstjórarnir á fiskibátunum að ókyrrast og ræddu það sín á milli að það hlyti að fara að hlána og ísinn færi. Einhverjir brugðu á það ráð að reyna að saga bátana út, gera rennu og færa þá nær Suðurtanga. En ísinn fraus saman jafnóðum og það var lítið annað að gera í stöðunni en að bíða eftir að hlánaði. Það gerðist þó ekki fyrr en um miðjan febrúar. Á þessari mynd má sjá nokkra báta fasta í ís í Sundunum í Skutulsfirði, rétt við Suðurtangann. Ljósm. óþ.

„Yfirstandandi vetur er einstakur i sinni röð hvað ótíð, ísalög og flest snertir. Hér á landi hefir eigi annar eins komið síðan 1881, og leikur mjög vafi á hvor harðari er. Þessi er og hvergi nærri fullséður ennþá.“ Þannig segir ísfirska bæjarblaðið Vestri frá þeim harðindum sem hófust í byrjun janúar 1918 og þóttu heyra til tíðinda en voru aðeins upphafið að ári sem átti eftir að verða sögulegt á margan hátt, ekki aðeins á Íslandi heldur á heimsvísu.

Í blaðinu er greint frá því að frosthörkurnar hafi byrjað 5. janúar þegar ís rak inn á Skutulsfjörð og fyllti hann sem og flesta firði utan Ögurness, sem liggur í miðju Ísafjarðardjúpi. Næstu vikur voru látlausar frosthörkur sem stóðu óslitið til 7. febrúar og mældist allt að 36 stiga frost fram til dala inni í Djúpi. Farið var á ísi frá Hnífsdal beina leið í Ögurnes og 17. janúar komst landpósturinn á hestum yfir ís frá Langadalsströnd alla leið út í Ögur, en á sleðum þaðan fyrir Arnarnes og til Ísafjarðar. Fyrir utan Vigur var samfelld hafísbreiða svo ekki var kleift að komast til Ísafjarðar á hestum úr Djúpinu, en fyrir innan lagís og hægt að fara ríðandi úr Æðey í Ögur.

Nokkrar stúlkur stilla sér upp á ísjökum sem rekið hafa upp í fjöruna við Prestabugtina í Skutulsfirði.

Nokkrar stúlkur stilla sér upp á ísjökum sem rekið hafa upp í fjöruna við Prestabugtina í Skutulsfirði. Myndin er líklega tekin að vori til á fyrstu árum 20. aldarinnar. Ljósm. óþ.

Harðindi ollu miklum bjargarskorti á Ísafirði þar sem ástandið var erfitt fyrir vegna almennrar fátæktar og atvinnuleysis. Skortur var á allri nauðsynjavöru vegna heimsstyrjaldarinnar, ekki síst kolum til húshitunar, en hafísinn kom þar að auki í veg fyrir vöruflutninga á sjó og að bátar kæmust til veiða. Könnun í bænum leiddi í ljós að 988 manns voru bjargarlausir og þörfnuðust opinberrar aðstoðar til að kaupa kol og aðrar nauðsynjar. Fréttir hermdu að í timburhúsi einu í bænum hefði mælst 18 stiga frost eina nóttina og víða frusu sængur fastar veggi.

Heimildir
Vestri, 10. mars 1918 og Njörður, 23. janúar 1918.
5348/1051: Minnisblöð Bjarna Sigurðssonar í Vigur 1915-1938 (ljósrit).

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafninu á Ísafirði.