Litbrigði í lífi ungra Álfthreppinga árið 1918

Norræni skjaladagurinn 2018

Litbrigði í lífi ungra Álfthreppinga árið 1918

Helgi Ásgeirsson og Friðjón Jónsson.

Helgi Ásgeirsson og Friðjón Jónsson.

 

Að kanna ókunnar slóðir þykir mörgum, og þá sérstaklega ungu fólki, eftirsóknarvert. Það gaf lífinu lit árið 1918 eins og það gerir enn í dag.

Í Héraðsskjalasafni Borgarfjarðar er varðveitt ferðasaga sem ber yfirskriftina „Þegar ég skemmti mér best“ og er eftir Friðjón Jónsson frá Hofsstöðum í Álftaneshreppi. Í henni segir Friðjón frá því þegar hann og frændi hans og vinur, Helgi Ásgeirsson frá Knarrarnesi, fóru landveg úr Mýrasýslu til Húsavíkur í sumarbyrjun 1918. Þá var Friðjón 22 ára og Helgi 24 ára. Tilgangur ferðalags þeirra var að heimsækja ættingja, Þórdísi systur Helga og mann hennar, Bjarna Benediktsson. Einnig bjó Jóhann Bjarnason, föðurbróður Helga á Húsavík.

Friðjón segir frá að þeir hafi lagt af stað frá Hofsstöðum þann 8. júní og haft 7 hesta til reiðar. Rekur hann síðan dagleiðirnar, veðrið og gististaði þeirra á ferðalaginu. Fyrstu nóttina gistu þeir á Laxfossi í Stafholtstungum og héldu síðan sem leið lá norður yfir Holtavörðuheiði. Oftast nær gistu þeir á prestsetrum og var þeim allsstaðar vel tekið nema á einum bæ þar sem þeir voru seinir fyrir og komið var fast að miðnætti. Þar urðu þeir að gera sér að góðu að hýrast í opnu útihúsi við slæma vist. Á Staðarbakka slóst stúlka að nafni Karen Ísaksdóttir frá Grenjaðarstað í Þingeyjarsýslu í för með þeim félögum.

Margt er fallegt að sjá á leiðinni og meðal annars skrifar Friðjón:

Var fögur sjón að sjá af Vatnskarði yfir Skagafjörðinn, sólin var að setjast við sjóndeildarhringinn og glitruðu öll Héraðsvötnin og var sem í gullsævi. Gistum við á Víðimýri um nóttina og var veittur góður beini. Héldum við þaðan næsta dag. Var veður ekki skemmtilegt, þokusúld og regn nokkuð, svo við höfðum ekki eins góða útsýn yfir hið fagra Skagafjarðarhérað. Riðum við sem leið liggur um Skagafjarðarhólminn yfir að ferjustaðnum á Héraðsvötnunum. Hólmurinn er afar skemmtilegur yfirferðar, rennsléttar grundir og bakkar, enda var þar sprett úr spori og ekki bætti það reiðlagið að bræðurnir frá Víðimýri slógust í för með okkur dálítinn spöl, því Skagfirðingar eru orðlagðir reiðfantar. Gekk ferðin vel yfir Héraðsvötnin og héldum við svo póstleiðina yfir Öxnadalsheiðina. Fórum við á þeirri leið yfir Valagilsá, sem Hannes Hafstein hefur ort um hið fagra kvæði.

Um dvöl þeirra á Húsavík skrifar Friðjón eftirfarandi:

Næsta dag riðum við til Húsavíkur, var þar fagnaðarfundur eins og nærri má geta. Dvöldum við þar í 7 daga og heimsóttum vini Bjarna Benediktssonar og þeirra hjóna. Fórum við einn daginn að skoða hina landsfrægu kolanámu á Tjörnesinu og einnig fórum við upp að Laxamýri. Voru veður hin bestu meðan við dvöldum þar, sólskin og logn. Lögðum við af stað þaðan aftur 25. júní. Voru í för með okkur af stað Þórdís Ásgeirsdóttir, Jóhann Bjarnason, börn Steingríms sýslumanns Jón og Þóra og fóstursystir þeirra Þórleif Pétursdóttir. Héldum við fyrst upp í Reykjahverfið að Uxahver. Langaði okkur til að sjá hann gjósa og heppnaðist það. Þar skoðuðum við garðræktarsvæðið og gróðrarstöðina og höfðum gaman af. Héldum síðan yfir Reykjaheiðina að Grenjaðarstað. Á Reykjaheiðinni snéru þau til baka systkinin Jón og Þóra og Þórleif Pétursdóttir og héldu aftur til Húsavíkur.

Á heimleiðinni fóru þeir aðeins aðra leið en áður. Nú fóru þeir frá Akureyri, gistu á Völlum í Svarfaðardal og héldu síðan yfir Heljardalsheiði fylgdarlausir. Var þar yfir brattan og vondan veg að fara og stigu þeir aldrei af snjó og gengu mest yfir heiðina eins og Friðjón kemst að orði. Náðu þeir heilir á húfi að Hólum í Hjaltadal og gistu þar um nóttina og héldu síðan á Sauðárkrók og voru þá komnir á sömu leið og á norðurferðinni.

Að lokum skrifar Friðjón:

Þaðan héldum við að Stað í Hrútafirði og því næst aftur að Laxfossi og næsta dag heim sem var 5. júlí. Höfðum við þá verið að heiman í 28 daga. Margar sveitir, sem við höfðum farið um þóttu okkur mjög fagrar, en fegursti bletturinn fannst okkur Borgarfjörðurinn með sínum reisulegu bæjum og víðáttu mikla og tignarlega sjóndeildarhring. Hvort það var af því að sá bletturinn var okkur kærari en aðrir af Íslandi skal ég látið ósagt, en svona var það.

Hugleiðingar Friðjóns að ferð lokinni. Þær endar hann á að vitna í Íslandsljóð Hannesar Hafstein.

Hugleiðingar Friðjóns að ferð lokinni. Þær endar hann á að vitna í Íslandsljóð Hannesar Hafstein.

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafni Borgarfjarðar.