Litbrigði lífsins í Svarfaðardal

Norræni skjaladagurinn 2018

Litbrigði lífsins í Svarfaðardal

Úr dagbók Þórarins Kristjánssonar Eldjárn fyrrum bónda og hreppstjóra á Tjörn í Svarfaðardal.

Sama góða veðrið. Mikil er sú fjallanna gjöf. Haldinn fundur til að ræða um sóttvarnir gegn spönsku veikinni og skarlatsóttinni.

Dagbók Þórarins Kristjánssonar Eldjárn fyrrum bónda og hreppstjóra á Tjörn í Svarfaðardal.

Dagbók Þórarins Kristjánssonar Eldjárn.

Á þeim orðum hefst dagbók Þórarins Kr. Eldjárn fyrrum bónda og hreppstjóra á Tjörn í Svarfaðardal. Færslan er rituð 7. desember 1918. Þórarinn var sonur Kristjáns Eldjárns Þórarinssonar prests á Tjörn og Petrínu Soffíu Hjörleifsdóttir konu hans. Kristján Eldjárn var vel liðinn í sveitinni og var hann talinn afar hagmæltur og frásagnameistari einstakur. Því miður er þó fátt talið hafa varðveist eftir hann í rituðu máli. Honum er lýst sem hróki alls fagnaðar á mannamótum, trygglyndum og frjálshyggjumanni í kenningu. Í Svarfdælingum er hann sagður hafa notið bæði virðingar og vinsælda. Móður Þórarins, Petrínu er lýst sem mikilhæfri konu og vel að sér, glaðlyndri að eðlisfari og hlýrri í viðmóti. Eftir fráfall þeirra merkishjóna tók Þórarinn við búinu á Tjörn enda jörðin fjölskyldunni einstaklega kær og er enn í dag – nokkrum ættliðum síðar. Þórarinn bjó á Tjörn fram til ársins 1959 en síðasta árið dvaldi hann þar í samneyti með elsta syni sínum Hirti Þórarinssyni. Þórarinn lauk gagnfræðinámi frá gagnfræðaskólanum á Akureyri og seinna stundaði hann nám við lýðháskólann á Voss í Noregi. Hann sótti auk þess kennaranámskeið við Kennaraskóla Íslands og var það undanfari starfsferils hans sem kennara í Svarfaðardal og síðar skólastjóra á sama stað.

Þórarinn Kristjánsson Eldjárn fyrrum bóndi og hreppstjóri á Tjörn í Svarfaðardal.

Þórarinn Kristjánsson Eldjárn fyrrum bóndi og hreppstjóri á Tjörn í Svarfaðardal.

Árið 1918 tóku börn Kristjáns Eldjárns Þórarinssonar upp ættarnafnið Eldjárn. Elstur systkinanna var Þórarinn, síðan komu Ingibjörg, Ólöf og yngst Sesselja Guðrún. Margir hafa líklegast nú þegar áttað sig á tengingunni við Kristján Eldjárn forseta, en hann var sonur Þórarins sem hér er til umfjöllunar. Á vef Stofnunar Árna Magnússonar má lesa að árunum 1915-1925 hafi verið leyfilegt að skrá ættarnöfn opinberlega og greiddu menn og konur þá fyrir skráningu nafnanna. Á þessum tíma höfðu ættarnöfn hægt og rólega verið að festa sig í sessi og þá ekki síst hjá Íslendingum sem höfðu dvalið erlendis við nám.

Dagbók Þórarins Kristjánssonar Eldjárn fyrrum bónda og hreppstjóra á Tjörn í Svarfaðardal.

Dagbók Þórarins Kristjánssonar Eldjárn.

Dagbókin sem vitnað er í hér í upphafi er um margt merkileg. Færslurnar fyrir hvern dag eru stuttar, en segja þó heilmikla sögu. Laugardaginn 7. desember kemur fram að Þórarinn ásamt fleirum hafi sótt fund til að ræða sóttvarnir gegn spönsku veikinni og skarlatssóttinni. Næsta dag ritar hann um sérstakan seðil með fararleyfi sem fólk þurfti að fá afhent frá oddvita til að fara á milli staða. Á þessum tíma var Holtavörðuheiðin lokuð vegna spænsku veikinnar sem geisaði um landið og fékk því enginn að ferðast á milli landshluta nema brýn nauðsyn krefðist.

Samgöngur voru því óneitanlega með öðrum hætti en nú tíðkast og sannast það einnig á dagbókarfærslu Þórarins nokkrum dögum síðar þar sem hann lýsir því þegar hann þurfti að: „þvælast um bankana, peningar pabba lausir fyrst nú“. Þetta er skrifað rúmu ári eftir andlát Kristjáns. Eftir bankaþvælinginn lagði Þórarinn af stað frá Akureyri klukkan 22:00 að kvöldi til en var ekki kominn til baka fyrr en um nóttina – þó tiltekur hann: „komum heim í nótt í sama blessaða veðrinu“ svo ferðin virðist hafa gengið vel. Í dag tekur sama ferðalag um 30 mínútur við ágæt skilyrði. Þórarinn gisti hjá vinafólki á Dalvík í stað þess að fara alla leið inn í Svarfaðardal til þess að ná upp orku og hvíld eftir kaupstaðaferðina.

Hér má lesa sýnishorn af dagbókarfærslum þennan desember – mánuð 1918 þegar nær dregur jólum:

20. desember, föstudagur: Þokuloft og tvíráðið veður. Muggaði örlítið að öðru hvoru. Fór til rjúpna. Fékk enga. Fór til Dalvíkur á söngæfingu. Fór með smjör og tólg frá Sigrúnu til gjafa í Kvennfélagið. Stína Jóns jörðuð.
21. desember, laugardagur: Gott veður, norðangustur og þoka. Dálítið frost. Kom hér kaupm. Þorsteinn á Dalvík. Stansaði dálítið. Borgaði kirkju og sóknargjöld. Krónur 20.
22. desember, sunnudagur: Besta veður en kalt 13. stig. Fór til Dalvíkur voru þar komnir þeir frændur að norðan. Guðmundur og Árni á Auðnum. Gaf okkur hillu undir klukkuna. Var hér í nótt.
23. desember, mánudagur: Gott veður, minna frost. Bar Dimma, fór til hrúta með 2 ær. Verða þar um brunntíðina. Jón Langur, hér í nótt. Alltaf ljúgandi.
24. desember, þriðjudagur: Þokuruðningur í lofti og kastar vindi sitt á hvað. Þó allgott veður og frost. Höfum ekki látið út nú í þrjá daga líklega hættir með öllu. Fórum með hrút í fyrsta skipti. Skar kálf -Dimmu. Gullbringufólkið kom ekki ofan eftir í kvöld.
25. desember, miðvikudagur: Besta veður, bjart og kalt, fór með hest sem ég fékk lánaðann ofan eftir til Sellu. Fjöldi fólks í kirkju. Haldinn heilsuhælisfundur á eftir messu. Gísli, Berta, systur mínar og frændur hér í nótt.
26. desember, fimmtudagur: Líkt veður og í gær. Fórum til Gullbringu.

Líkt og í mörgum dagbókum frá þessum tíma er mikið rætt um veðrið og hefjast dagbókarfærslur iðulega á því að gera grein fyrir veðurskilyrðum þann daginn. Þegar líða tekur nær jólum fer hversdagsleikinn að taka á sig hátíðarlegri blæ og jólahefðirnar gera vart við sig. Dagbækur eru mikilvægar heimildir um tíma sem nú er liðinn og færa mann á vissan hátt nær raunveruleikanum eins og hann var á þessum tíma. Með því að nýta dagbækur sem efnivið til einsögurannsókna gefst m.a. færi á að skoða íslenska félagssögu með áherslu á alþýðumenningu síðari alda.

Heimildir
Þórarinn Kr. Eldjárn. Dagbók, 1918 -1921. Afhent á Héraðsskjalasafn Svarfdæla árið 1981.
Kristmundur Bjarnason. Saga Dalvíkur – 3. bindi. Dalvíkurbær, 1984.
Stefán Aðalsteinsson. Svarfdælingar. Iðunn, Reykjavík, 1978.

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafni Svarfdæla.