Sjálfstæði

Norræni skjaladagurinn 2018

Sjálfstæði

Greinin „Sjálfstæði“ í sveitablaðinu Dagskrá.

Greinin „Sjálfstæði“ í sveitablaðinu Dagskrá.

 

Í 2. tölublaði 2.árgangs sveitablaðsins Dagskrá, sem var gefið út í Mývatnssveit árið 1918, ritar Þórólfur Sigurðsson eftirfarandi grein er hann nefndi „Sjálfstæði“:

Nú á tímum er þetta orð notað í mörgum myndum, og venjulega er það lofsorð, þegar það er sagt um fólk, að það sé sjálfstætt. Einkum eru það karlmennirnir, sem ætlast er til að sýni þessa dygð. Vitaskuld er það sagt um kvenfólk líka í því skyni, að hrósa því, en oftast fylgir því hrósi þó einhver leiðinda agnúi.

Það væri synd að segja, að konur væru almennt aldar upp, til að vera sjálfstæðar, hugsandi og ályktandi verur – en nú er þetta nokkuð að breytast, og það talsvert til batnaðar, en mikið vantar þó á, að vel sé í því tilliti ennþá. Margir foreldrar eru sem betur fer, farnir að ala dætur sínar upp til að reyna bjarga sér áfram í lífinu, á einhvern sómasamlegan hátt, þótt þeim bjóðist ekki maður, til að bera þær á örmum sér, frá vöggunni til grafarinnar. – En hve margir feður kenna dætrum sínum að hugsa hleypidómalaust? Hvað margir kenna þeir að hafa sannfæringu, og fara jafnan eftir henni – en ekki eftir gömlum úreltum reglum? Ennþá er almenn skoðun manna, að eiginlega hafi karlmennirnir af miklu meira að taka, þegar um sjálfstæðar skoðanir er að ræða. Það er oft sagt, að röksemdaleiðslan, sé veika hliðin kvennanna, af þær álykti og staðhæfi um það og það, en hugsunarfræðislegar ástæður vanti. – Ef það er nú satt, þá er það af því að aldrei er haft svo mikið við stúlkubörnin, að kenna þeim rökfræði, eða kenna þeim að finna rökfræðislegar ástæður fyrir málstað sínum. Líklega kemur þetta fyrir af þeirri einföldu ástæðu, að konur hafa ekki verið álitnar þurfa á því að halda; þær ættu ekki að tala um annað en það, sem við kæmi þeirra húsmóðurlegu skyldum, og ættu ástæðurnar þar að liggja fyrir allra manna sjónum.

Reykjahlíðarbændur við engjaheyskap. Ljósmyndasafn Þingeyinga.

Reykjahlíðarbændur við engjaheyskap. Ljósmyndasafn Þingeyinga.

En skyldi það nú spilla nokkuð til, þótt við kenndum okkur dálítið meira, að rökstyðja, þegar við höfum einhverjar skoðanir á hlutum eða málum, en hömrum ekki heimskulegar ályktanir áfram út í bláinn, án þess að unt sé, að láta okkur sjá ástæðunnar. – Þegar feðurnir fara svo að ala dætur sínar upp samhliða drengjunum; sýna þeim sama traust, og kenna þeim á sama hátt, að bera ábyrgð á orðum og athöfnum, þá fyrst förum við að standa meira jafnfætis bræðrunum, og hvorugt kynið mun bíða af því nokkurn skaða. – Sjálfstæðið er ekki innifalið í því, að vasast í sem flestu, heldur í því, að hafa ákvarðaðar skoðanir á því, hvað rétt sé og rangt, hvað menn vilji og hvað menn ekki vilji, og að breyta einmitt eftir þessum skoðunum, hvað sem aðrir segja. Konan, sem stjórnar heimili sínu og elur upp börnin sín, getur verið alveg jafn sjálfstæð þeirri, sem starfar í opinberum málum. Hún getur ef til vill komið meiru til leiðar, og haft varanlegri áhrif, með sínum látlausu, ákvörðuðu skoðunum – á mann sin og börn, heldur en hin, sem hærra tala og meira ber á. Hvergi er lík jarðvegurinn betri fyrir, áhrif sjálfstæðrar skoðunar, en þar sem börnin eru. Ef móðirin er sjálfstæð í raun og sannleika, þá kennir hún þeim, að fella ekki í hugsunarleysi blinda sleggjudóma, af því „allir segi það“, heldur annaðhvort sneiði sig hjá, að fella dóma um hluti og mál, sem þeim ekki koma við, eða byggja þá á gildum ástæðum, en ekki hleypidómum og viðtekinni venju. Ef börnin ættu sannarlega sjálfstæða foreldra, þá mundu framfarir landa og lýða verða allt öðru vísi. Þá yrðu áhrifin utan að þýðingarminni, og skapferlið heilbrigðara og drenglyndara, en nú er hjá mörgum. Þá hættu menn að ganga með lífið í lúkunum, yfir því hvað sagt væri um þá, en hugsuðu meira um, að gera það eitt, er þeim sjálfum þætti rétt vera.

Heimildir
HérÞing. E-1550/10 Sveitablaðið Dagskrá. 2.árg 2.tbl 1918.

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafni Þingeyinga.