Úr dagbók Guðrúnar Sigríðar Sigurbjörnsdóttur

Norræni skjaladagurinn 2018

Úr dagbók Guðrúnar Sigríðar Sigurbjörnsdóttur

Skipin Áki og Pampa föst í hafís á Skjálfanda árið 1915.

Skipin Áki og Pampa föst í hafís á Skjálfanda árið 1915.

„Það var í janúarmánuði 1918 sem þetta gerðist, sem nú skal segja frá. Ég var tæpra 12 ára. Var hjá foreldrum mínum í Flatey á Skjálfanda.

Guðrún Sigríður Sigurbjörnsdóttir (22. apríl 1906 - 7. janúar 1991).

Guðrún Sigríður Sigurbjörnsdóttir
(22. apríl 1906 – 7. janúar 1991).

Laugardagur 5.janúar 1918
Barnaskólinn var byrjaður að afstöðnu blessuðu jólafríinu. Þar var stillt og bjart veður, en óvanalega mikill nístandi kuldi. Við börnin vorum inni í hlýrri og vistlegri skólastofunni ásamt okkar ágæta kennara Jóhannesi Bjarnasyni hreppsstjóra. Þá veittum við því eftirtekt að það leit út eins og skafrenningur ryki áfram eftir öllum sjónum svo langt sem augað eygði. Hvað er þetta spurðum við kennarann, en hann sá það ekki, hann var svo nær sýnn, við lýstum þessu og sagðist hann álíta þetta koma af frostinu. Skólinn var úti þennan daginn, ég hljóp heim í einum spretti og spurði pabba minn hvað væri á sjónum. Við köllum þetta ís eyming. Hvernig stendur á honum spurði ég. Ætli sá hvíti sé ekki að nálgast segir pabbi. Ég vissi hver hann var, það var hafísinn óvinur alls sem lifir. Útgarðar, stórt timburhús sem við bjuggum í, stóð 25 til 30 metra frá sjó, var allt of nærri sjó því kvika gekk, þegar brim var mest, alveg heim að húsinu. Dagurinn leið. Gráni gamli eini hesturinn á eyjunni kom og var að kroppa á bakkann sunnan við húsið. Kennarinn átti hestinn. Nú hefði ég fært Jóhannesi Grána ef ég vissi hvort hann vildi taka hann í hús, sagði pabbi. En sem hann sleppir orðinu kemur Jóhannes inn til okkar. Ég leit hérna rétt inn, ég er að sækja Grána minn. Hann er eitthvað svo nístandi kaldur, núna úti, en kyrðinn, segir Jóhannes. Já ætli hann reki ekki inn ísinn í nótt, það er ljótur bakkinn hans í norðvetrinu segir pabbi, svo hef ég veitt því eftirtekt að æðarfuglinn er alveg horfinn, þessi fagri og vitu fugl forðar sér undan ísnum sem best hann getur. Er þetta virkilega satt Sigurbjörn spyr Jóhannes, já sagði pabbi, það verður þá fallegt með varpið í vor. Jóhannes var einn af þremur sem áttu æðarvarpið. Þegar við fórum að hátta var sama lognið. Við systurnar sváfum saman, mér gekk illa að sofa um nóttina, mér var svo kalt.

Morgunblaðið 8. janúar 1918.

Morgunblaðið 8. janúar 1918.

Sunnudagur 6. janúar 1918
Mamma klæddi sig kl. 8 og kveikti á prímus til að hita morgundrykkinn, svo fór hún fram að sækja brauðið, þá kom kisa okkar inn. Við tókum hana upp í rúm, henni var ósköp kalt, hún var gáfaðasti köttur sem ég hef þekkt. Hún var eini kötturinn á eyjunni. Þegar ég var lasinn og lá í rúminu færði hún mér mýs, fyrst hausinn svo skrokkinn og þegar hún var lánuð á aðra bæi snerti hún þar aldrei mat, en var nestuð heim og þáði það þegar heim kom. Þetta eru nú aðeins tvö dæmi um gáfur Laufeyjar. Mamma kom inn, það er norðvestan stórhríð með þessu grimmdar frosti sagði hún og hænsnin fent í kofanum. Kofinn var áfastur norðan að húsinu. Við sem vorum óklædd flýttum okkur í fötin. Hænsnin og kisa voru einu skepnurnar sem við áttum svo nú varð að bjarga þeim, sem líka var gjört. Hélan var svo þykk á gluggunum að ómögulegt var að sjá út, við velgdum straujárn og bræddum á rúðu gægjugat þegar bjart var orðið. Það rofaði ögn til og sjá, engin sjór, allt al hvítt. Hafísinn var orðinn landfastur. Frostið var svo ógurlegt 26 stig. Það birti ögn til er á daginn leið. Það var ekki viðlit að hægt væri að búa í Útgörðum er svona var komið fyrir kulda, þó vel væri kynt varð gufan að hélu á veggjum og dropar láku ofan úr loftinu og urðu að frostkúlum á gólfinu. Þetta kveld fluttum við í torfbæ þar sem voru hjón með marga krakka. Margir fleiri fóru að okkar dæmi.

Frostið hélst en veður batnaði, menn fóru að kanna ísinn, hvort hann hefði ekki fært mönnum björg í bú svo sem sel eða hnísu en svo var ekki. Það var hafís svo langt sem augað eygði. Þar sem voru vakir fraus fljótlega saman. Fjórir eða fimm menn fóru gangandi til Húsavíkur alla leið á hafísnum. Þeir sáu eitt bjarndýr, grátt með rauða kjammanna, það varð hrætt og lagði á flótta er það sá mennina. Svo fóru menn einnig gangandi upp á Flateyjardalinn með smásleða að sækja svörð í eldinn, nú urðu margir eldiviðarlausir því mikið þurfti að kynda. Líka fóru margir að gamni sínu til lands að heimsækja kunningja og til að sjá með eigin augum þessar einkennilega ísborgir sem farið var fram hjá. Viku eftir að ísinn rak inn fór ég með kunningjum mínum, tveimur stúlkum og tveimur piltum, norðvestur á eyjuna fjærst byggðinni. Við sáum bjarndýrsspor, þau voru nærir því kringlótt og voru tæpt fet í þvermál. Þá er mér minnisstætt að sjá, þrjá fjóra faðma frá fjöruborðinu eftir allri strandlengjunni rastir af dauðum Haftyrðli, þeir láu þar hundruðum eða þúsundum saman frosnir í hel, sumir láu á bakinu en allflestir húktu á fótum sér og báru höfuðið rétt. Haftyrðill er lítið sætti en Grátittlingur, en svartur á baki og hvítur á bringu. Áður en við þessi fimm skyldum um kvöldið, ákváðum við að fara næsta sunnudag upp á Flateyjardal.“

Heimildir
HérÞing. 1365/4 Guðrún Sigríður Sigurbjarnardóttir frá Úlfsbæ í Bárðardal. Dagbók.
Tímarit.is.

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafni Þingeyinga.