Dagskrá

Norræni skjaladagurinn 2018

Sýningar Borgarskjalasafns

Á 3. hæð Grófarhússins er Borgarskjalasafn með tvær sýningar er tengjast skjölum safnsins. Sýningarnar eru opnar á opnunartíma safnsins. Allir velkomnir og aðgangur ókeypis.

  1. Einkaskjalasöfn á Borgarskjalasafni eru afar fjölbreytt sýning sem endurspeglar á skemmtilegan hátt ólíka sögu einkaaðila sem lifað hafa og starfað í Reykjavík í gegnum árin. Úr einkaskjalasafni Sigurbjörn Jónssonar nr. 227 er úrval sumarkorta sem hann safnaði og geymd eru á safninu.
  2. Sýning á skjölum úr einkaskjalasafni Vísnavina E-326 lýsir vel fjölbreyttri sögu tónlistarfélagsins, en það var stofnað árið 1976. Tilgangur félagsins var að stuðla að flutningi og sköpun vísna- og alþýðutónlistar. Félagar voru hátt á annað hundrað en það hætti starfsemi í desember 2006 og eru skjöl félagsins geymd á safninu. Mjög góð aðsókn hefur verið að sýningunni enda margir sem muna eftir Vísnavinum.

 

Safnahús Borgarfjarðar

Næstkomandi laugardag, 10. nóvember, sem er norræni skjaladagurinn, verður aukaopnun í Safnahúsi Borgarfjarðar kl. 13:00 – 15:00, þar sem Helgi Bjarnason sýningarstjóri veitir leiðsögn um sögusýninguna Hvítárbrúna 90 ára.

 

Héraðsskjalasafnið á Akureyri

Héraðsskjalasafnið á Akureyri verður ekki með sérstaka dagskrá á skjaladaginn að þessu sinni. Á safninu er nú unnið að undibúningi sýningar sem tengist mjög þema skjaladagsins 2018, en væntanleg sýning verður opnuð á fullveldisdaginn 1. desember næstkomandi. Yfirskrift sýningarinnar er „Bæjarbragur: í upphafi fullveldis“ og er samstarfsverkefni Amtsbókasafnsins, Héraðsskjalasafnsins og Minjasafnsins á Akureyri. Á vef skjaladagsins eru tvö efni frá Héraðsskjalasafninu á Akureyri að þessu sinni en þeim eru betur gerð skil á væntanlegri sýningu, ásamt fleira efni. Sýningin verður á 1. hæðinni í Brekkugötu 17 og verður opin á opnunartíma hússins. Sýningin mun standa út janúar 2019.