Leiðari

Norræni skjaladagurinn 2018

Evrópa er sláturhús, þar myrða þeir af móði
og mannbúka í spaðtunnurnar brytja í erg og gríð.
Við trogið situr England og er að hræra í blóði
með öllum sínum kaupmönnum og bæjargötulýð.

Svo orti Stephan G. Stephansson og mun kveðskapurinn hafa farið mjög fyrir brjóstið á mönnum. Árið 1918 sá fyrir endann á þessari skelfilegu heimsstyrjöld – stríðinu, sem átti að enda öll stríð. Undir lok stríðsins ríkti því þrátt fyrir allt bjartsýni. Betri heimur væri í vændum og þrátt fyrir allar fórnirnar vildi fólk að horfa fram á veginn.

Yfirskrift Norræna skjaladagsins 2018 er: 1918 — Litbrigði lífsins. Eins og gefur að skilja varðveita íslensku skjalasöfnin mikið efni frá því merkisári 1918, sem um hefur verið fjallað á margvíslegan hátt á síðustu misserum. Árið 1918 var frostavetursár og Kötlugossár. Þá kom Spánska veikin með sínum hörmungum og það sem kannski var mest um vert: Ísland varð í raun sjálfstætt ríki árið 1918.

Íslendingar voru að stærstum hluta afar fátæk þjóð. Flestir áttu nóg með að hafa í sig og á. Öll áföll, hversu smávægileg sem þau annars voru, gátu riðið baggamuninn um lífsafkomu fólks. En fólk barðist áfram og þrátt fyrir allt tókst flestum að sjá sér og sínum fyrir nauðþurftum. Hér á vefnum eru birt innslög frá allmörgum íslenskum skjalasöfnum og tengjast þau öll árinu 1918. Vonandi gefa innslögin dálítið sjónarhorn inn í daglegt líf fólks í þessum hættulega heimi fyrir 100 árum síðan.