Framfarafélag Skagfirðinga

Norræni skjaladagurinn 2018

Framfarafélag Skagfirðinga

Horft heim að Hólum. Úr safni HSk.

Horft heim að Hólum. Úr safni HSk.

 

Þrátt fyrir harðindin árið 1918 lögðust íbúar í Skagafirði ekki í kör heldur horfðu björtum augum til framtíðar og var þann 7. júlí 1918 stofnað Framfarafélag Skagfirðinga á Hólum í Hjaltadal. Tilgangur félagsins var að stofna til félagsskapar sem gæti unnið í sameiningu að áhuga- og framfaramálum Skagfirðinga. Félaginu færðist mikið í fang og segir Kristmundur Bjarnason í Sögu Sauðárkróks að fullyrða megi að flest það sem til bóta horfði bæði í verklegum og andlegum efnum í Skagafirði næstu tvo áratugina, átti rætur að rekja til þessa félags.

Brot úr fyrstu fundargerð Framfarafélags Skagfirðinga. HSk. 1050, 4to.

Brot úr fyrstu fundargerð Framfarafélags Skagfirðinga. HSk. 1050, 4to.

Á fyrsta fundi félagsins var gert uppkast að lögum og rætt um stefnuskrá félagsins. Helstu áherslur félagsins voru eftirfarandi:

  • Félags- og samvinnumál: að styðja og efla kaupfélög, búnaðarfélög og ungmennafélög.
  • Atvinnumál: að styðja búfjárrækt, fjölgun býla og útbreiðslu nýjustu tækja og aðferða við jarðrækt.
  • Samgöngumál: að styðja hafnarbætur, akvegi og brýr.
  • Fræðslumál: að styðja unglingaskóla og lestrarfélög.
  • Fjármál: að stuðla að því að koma á fót sérstakri peningastofnun fyrir landbúnaðinn.

Það er ljóst að þrátt fyrir allt báru menn höfuðið hátt og voru bjartsýnir á framfarir í samfélaginu öllu á komandi áratugum.

Heimildir
HSk. 2060, 4to – Fundargerðarbók Framfarafélags Skagfirðinga
Kristmundur Bjarnason. 1973. Saga Sauðárkróks – Síðari hluti 2. bls. 227.

 

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafni Skagfirðinga.