Læt ég nú bókina tala sínu máli – úr dagbókum Péturs á Hranastöðum

Norræni skjaladagurinn 2018

Læt ég nú bókina tala sínu máli – úr dagbókum Péturs á Hranastöðum

Pétur Ólafsson (1869 - 1955) bóndi á Hranastöðum í Eyjafirði.

Pétur Ólafsson (1869 – 1955) bóndi á Hranastöðum í Eyjafirði.

 

Pétur Ólafsson (1869 – 1955) bóndi á Hranastöðum í Eyjafirði hélt dagbækur í fjöldamörg ár og á safninu eru þær til frá 1908-14 og 1927-52. Sonur Péturs, Jakob Ó Pétursson, skrifar í októberhefti Heima er bezt árið 1968, um dagbókarskrif föður síns árið 1918. Þar kemur eftirfarandi fram:

En seint á liðnum vetri var ég að gægjast í dagbækur föður míns, en þær hélt hann alla sína búskapartíð, og varð mér einkum staðnæmzt við hinn margumtaðlaða frostavetur 1918…

Jan. 3.fid. (fimmtudagur) sunnan asahláka…
Jan. 4.föd. Sama veður…
Jan. 5.l.d. Norðan stormur með heljarfrosti, 16 gr.
Jan. 6. s.d. Norðan stórhríð með heljarfrosti, 18 gr.
Jan. 7.m.d. Hægur og loftber, 20 gr. frost.
Jan. 8.þ.d. Hægur framan af, gerði svo sunnan-renning og dró úr frosti, hafís kominn inn á fjörð.
Jan. 20.s.d. Norðan harðviðrishríð með 25 gr. frosti um morguninn, birti til og herti fr. í 32 gr.
Jan. 21.m.d. Kyrrt og heiðríkt og frostið yfir 30 gr.

Forsíða úr fyrstu dagbók Péturs Ólafssonar frá 1 febrúar 1908.

Forsíða úr fyrstu dagbók Péturs Ólafssonar frá 1 febrúar 1908.

Í Íslendingi í janúar 1918 gefur Steingrímur Matthíasson almenningi ráð gegn kuldanum.

Í Íslendingi í janúar 1918 gefur Steingrímur Matthíasson almenningi ráð gegn kuldanum.

Dagbókin greinir ekki frá sérstökum erfiðleikum í samgöngum vegna harðinda inn í Eyjafirði en ferðalög voru þó tíð milli sveitarinnar og Akureyrar í janúar 1918. Í janúar náði hafís inn í nær hvern fjörð á Norðurlandi, frost var allt að 20 gráðum og þar yfir og samfelld íshella þakti allan Eyjafjörð.

Ef dagbókin hans Péturs er borin saman við heimildir utar í firðinum má ætla að frosthörkurnar hafi haft minni áhrif á mannlífið inn í Eyjafirði en utar. Þess má og geta að Hranastaðir standa hátt og oft mælist frostið þar 1 – 2 gráðum hærra en á neðri bæjum í sömu byggð.

Veturinn 1917-18 var óvenju gjaffrekur og gekk mjög á heybirgðir sumra bænda er leið að vori. Pétur var forðagæslumaður hreppsins og sem slíkur ferðaðist hann um og kannaði heybirgðir og ástand búfjár. Í dagbókinn segir hann frá heyskiptum, þ.e. hann lánaði hey gegn skilum á komandi sumri en þar sem sumarið var kalt og mikið grasleysis-sumar gengu skilin ekki sem skyldi. Pétur sjálfur fékk ekki nema 68 hesta af heyi þetta sumar en í meðalári voru þeir 100. Taðan var svo fíngerð að hún tolldi illa í reipum og útheyskapur var einnig minni en í venjulegu ári.

Af skrifum Péturs má glöggt sjá ástand veðurs og heyfengs í gegnum árin. Dagbækur hans fjalla mikið um tíðarfar og í síðustu færslu hans bregður hann ekki frá vananum og segir:

31. des. 1952. Talsvert frost.

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafninu á Akureyri.