Frostaveturinn mikli

Norræni skjaladagurinn 2018

Frostaveturinn mikli

Bær á Höfðaströnd. Þórðarhöfði í baksýn. Úr safni HSk.

Bær á Höfðaströnd. Þórðarhöfði í baksýn. Úr safni HSk.

 

Árið 1918 var í Skagafirði, líkt og víðsvegar um landið, óvenju hart í ári sökum frostaveturins mikla. Matarbirgðir voru af skornum skammti, kol illfáanleg og víða lítið til af mó sökum þess hve snemma fór að snjóa sumarið áður. Sumarið sem fylgdi í kjölfarið var kalt og víða mikill uppskerubrestur, bændur urðu margir að skera niður bústofn sinn sökum heyskorts og sumir hverjir sáu sér ekki annað fært en að bregða búi og freista þess að flytast með fjölskyldur sínar í kaupstaðinn í leit að betra lífsviðurværi.

Fjölskyldan á Bæ á Höfðaströnd. Björn Jónsson stendur fyrir miðri mynd. Úr safni HSk.

Fjölskyldan á Bæ á Höfðaströnd. Björn Jónsson stendur fyrir miðri mynd. Úr safni HSk.

Í frásögnum Björns Jónsonar frá Bæ á Höfðaströnd er að finna greinagóðar lýsingar á frostavetrinum 1918. Lýsir Björn því hvernig Skagafjörður lokaðist og varð allur ísi lagður á örfáum dögum. Eftirfarandi frásögn lýsir lífsbaráttunni sem allir stóðu frammi fyrir og var þar enginn undanskilinn, hvorki menn né dýr:

Síðasta vökin sem ég man eftir áður en allt varð samfrosta var við Bæjarkletta, hélst hún raunar opin vegna þess að þar var krökkt af fugli og tugir af Hnísu, allt var reynt til að bjarga lífi þeirra undan ægivaldi hafíssins, nokkra daga var vonlaus barátta háð. Við komum að vökinni daglega og bárum þangað moð úr fjárhúsum og eitthvað af mat, fuglinn sat mikið á moðinu því þeir sem settust á ísinn frusu fastir. Vökin smá saman minkaði, fugli og Hnísum smá fækkaði og einn morgun er við komum að vökinni var allt orðið samfrosta, fuglinn dauður, Hnísurnar horfnar, höfðu þær vitanlega kafnað. Það voru daufir piltar er gengu heim frá þessu dánarbeði og ekki þurfi að sjá um fuglsræflana því að þar var Tófunni kærkomið æti, vitanlega svalt hún og var býsna aðgangshörð.

Heimild
HSk. 2135, 4to – Syrpur Björns Jónssonar bónda á Bæ á Höfðaströnd.

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafni Skagfirðinga.