Rigmor — mótorskonnorta Konráðs kaupmanns Hjálmarssonar á Norðfirði

Norræni skjaladagurinn 2018

Rigmor — mótorskonnorta Konráðs kaupmanns Hjálmarssonar á Norðfirði

Rigmor.

Þann 1. desember 1918 er Ísland var fullvalda ríki var Rigmor eitt af fjórum fyrstu skipunum er flögguðu með Íslenskum fána í erlendri höfn. Það var í Ibiza á Spáni, en þar lestaði skipið salt er átti að fara til Færeyja.

Konráð Hjálmarsson kaupmaður og útgerðarmaður á Norðfirði.

Konráð Hjálmarsson kaupmaður og útgerðarmaður á Norðfirði.

Hinn 3. desember fékk ritstjóri „Ægis“ símskeyti frá Ibiza (Spáni), er skipstjóri Ólafur Sigurðsson á skipinu „Rigmor“, eign kaupmanns Konráðs Hjálmarssonar, sendi þaðan um hádegi hinn 1. desember. Skeytið hljóðar svo:

Íslenzki fáninn er i dag dreginn upp í Miðjarðarhafinu. Hamingjuósk frá skípstjóra og skipshöfn á skipinu Rigmor.

Skyggnumst nú aðeins í sögu þessa skips

Skipið var byggt hjá skipasmíðastöðinni P. Ph. Stuhri Verft ibl. ifg. í Aalborg í Danmörku 1914 – 1915, þriggja mastra skonnorta, byggð úr stáli. Flutningaskip með eitt þilfar, 161,91 brúttó tonn að stærð, 135,25 tonn undir þilfari, 107,41 tonn nettó. 101,7 fet = 31,0 m. á lengd, 22,4 fet = 6,83 m. á breidd, 7,6 fet = 2,32 m. á dýpt. Mælibréf útgefið þann 9. júlí 1915. Einkennisbókstafir, kallmerki, L B H D.

Smíði skipsins lauk í júlímánuði 1915, samkvæmt sölubréfi dagsettu þann 15. júlí í Aalborg í Danmörku. Ekki er kunnugt um eigendur þess, en skipið átti heimahöfn í Nyköbing í Mors á Jótlandi og var nefnt A. H. Sehate.

Í maí mánuði 1916 er skipið seld til Odens í Danmörku, þá er hún nefnd Rigmor. Ekki er vitað um eigendur skipsins í Odens.

Samkvæmt söluskjölum dagsettum þann 23. febrúar 1917, og þjóðernis og eignaryfirlýsingu dagsettri þann 27. mars 1917 í Kaupmannahöfn, er skipið selt til Norðfjarðar, kaupandi Konráð Hjálmarsson kaupmaður og útgerðarmaður á Norðfirði og tengdasonur hans Páll Þormar Guttormsson á Norðfirði. Skipið er skráð í Íslenska skipaskrá þann 3. apríl. 1917, og nefnt Rigmor.

Rigmor var í saltfiskflutningum til Spánar og annarra Miðjarðarhafslanda og flutti salt og ýmsar vörur heim.

Þann 30. maí 1917 lagði hún af stað frá Kaupmannahöfn, hlaðin vörum til Fáskrúðsfjarðar, Eskifjarðar, Norðfjarðar, Mjóafjarðar og Seyðisfjarðar. Skömmu síðar sást hún sigla suður Eyrarsund undir þýsku flaggi. Þjóðverjar höfðu tekið hana fasta en slepptu henni fljótlega aftur. Og kom hún til Norðfjarðar í enduðum júní mánuði 1917.

Um miðjan september mánuð 1918, sigldi Rigmor með saltfiskfarm til Spánar, með viðkomu í Vestmannaeyjum, þar lagði hún á land veikan mann, Þórhall Vilhjálmsson frá Hánefsstöðum í Seyðisfirði. Í Vestmannaeyjum fóru tveir menn um borð og með skipinu út.

Þann 1. desember 1918 er Ísland var fullvalda ríki var Rigmor eitt af fjórum fyrstu skipunum er flögguðu með Íslenskum fána í erlendri höfn. Það var í Ibiza á Spáni, en þar lestaði skipið salt er átti að fara til Færeyja.

Eftir að hún sigldi frá Spáni, lenti Rigmor í óveðri og varð fyrir sjóskaða ofan þilja. Hafði hún þá farið í Portúgalska höfn. Samkvæmt skeyti frá skipstjóranum til eiganda skipsins á Norðfirði um brottför skipsins frá Portúgal, sagðist hann ætla að fara ný opnaða leið sem lægi austar en sú sem áður var farin. Getur hér varla verið um annað að ræða en leið gegnum tundurduflasvæði, sem þá voru um allan sjó, eftir fyrri heimstyrjöldina, en henni lauk þann 11. nóvember það ár.

Úr þeirri ferð kom Rigmor aldrei fram. Vel gæti verið að Rigmor hafi farist á tundurdufli, en um það er ekkert vitað. Vitað var að það voru válind veður á þessum slóðum þar sem skipið átti að fara um.

Eftirtaldir menn fórust með Rigmor:

Ólafur Sigurðsson, skipstjóri, fæddur 14. ágúst 1880. Búsettur í Kaupmannahöfn. Hann lét eftir konu og fjögur börn.
Ólafur Ólafsson, stýrimaður, fæddur 6. ágúst 1880 á Akranesi. Búsettur í Bifröst í Vestmannaeyjum. Hann lét eftir sig konu og fjögur börn.
Jóhann Jóhannsson, vélagæslumaður, fæddur þann 28. apríl 1876 á Krossi í Mjóafirði. Bjó í Kastala í Mjóafirði frá 1914 til dánardags. Hann lét eftir sig konu og sjö börn.
Karl Lárusson Valdorff, háseti, Norðfirði f. 18. maí 1896. Ókv.bl.
Frímann Guðnason, háseti, f. 8. maí 1899 í Ólafsvallasókn í Árnessýslu.
Guðjón Helgason, háseti, í Dalbæ í Vestmannaeyjum, 6. nóvember 1894.
Þorsteinn Jóelsson, matsveinn, (líklega lærður skósmiður) f. 11. desember 1876 að Sanddalstungu í Mýrarsýslu búsettur í Reykjavík.

Rigmor og áhöfnin sem fórst með skipinu í árslok 1918.

Rigmor og áhöfnin sem fórst með skipinu í árslok 1918.

Þann 9. maí árið 1928 var í Kaupmannahöfn afhjúpað af Kristjáni konungi 10. minnismerki um þá danska sjómenn sem létu lífið af völdum styrjaldarinnar 1914-1918. Þetta mun vera eitt stærsta minnismerki í Kaupmannahöfn. Það stendur við innsta hluta listibátahafnarinnar við Löngulínu, skammt frá minnismerkinu um Hafmeyjuna.

Á stöpli minnismerkisins eru greypt nöfn þeirra skipa sem talin voru hafa farist af völdum stríðsins og nöfn þeirra manna sem fórust með þeim. þar er nafn mótorskonnortunnar Rigmor og nöfn eftirtalinna manna:

Ó. Sigurðsson, skipstjóri,
Ó. Ólafsson, stýrimaður,
K. Lárusson, háseti.
F. Guðnason, háseti.
G. Helgason, háseti.
T. Jóelsson, háseti.
J. Jóhannsson, vélgæslumaður.

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafni Neskaupstaðar.