Hermaður skrifar heim

Norræni skjaladagurinn 2018

Hermaður skrifar heim

Umslag bréfs Sigurðar Johnsen ber þess merki að hafa verið opnað.

Á stríðsárum fyrri heimsstyrjaldar gegndu um 1300 til 1400 Vestur-Íslendingar herþjónustu, þar af voru rúmlega 1200 sem fóru á vígstöðvarnar. Áður en herskylda var sett á gengu þeir í herinn af mörgum ástæðum eins og ævintýraþrá eða skyldurækni, en einnig vegna þess að þá langaði til þess að sjá stríðið með eigin augum og berjast í stríðinu.

Vestur-íslensku hermennirnir áttu ættingja beggja vegna Atlandshafsins og skrifuðu margir hverjir heim. Einn þeirra var Sigurður Johnsen fæddur árið 1878 á Eskifirði. Hann flutti búferlum snemma á tuttugustu öldinni til Manitoba í Kanada. Sigurður skráði sig sjálfviljugur í herinn árið 1916 og fór á vígstöðvarnar ári síðar. Hann skrifaði mörg bréf til ættingja sinna á Austurlandi og hafa þau varðveist í einkaskjalasafni Þuríðar Johnsen, móður Sigurðar. Í bréfunum kveðst hann yfirleitt hafa það gott og ritar ekki um einstaka atburði. Hvort sem hann vildi hlífa fólkinu sínu fyrir ljótleika stríðsins eða ekki, þá voru ritskoðunarreglur skýrar hvað slíkt varðaði. Allur póstur var opnaður til þess að óvinurinn fengi ekki veður af hernaðaráætlunum, staðsetningu, stærð, uppbyggingu og ástandi herdeilda. Ímyndin af hernum og stríðinu þurfti líka að vera góð til þess að þjóðin sem heima sat myndi styðja stríðsreksturinn en ekki vera andsnúin honum.

Í bréfunum mátti ekki að segja frá andlegu og líkamlegu ástandi hermanna eða mannfalli, sigrum óvinarins eða gagnrýna ákvarðanir herforingja eða sverta nafn hersins og hermanna á nokkurn hátt. En þessar reglur voru brotnar, sérstaklega fyrst í stað og sum þessara bréfa voru til að mynda birt í Heimskringlu, tímariti Íslendinga í Manitoba. Og er þar lýst einmitt því sem ekki mátti segja frá. Sigurður braut fáar eða engar af ritskoðunarreglunum. Í bréfum hans má þó greina nokkurt sálarstríð og hægt að lesa á milli línanna að hann sé andlega þreyttur. Hann lýsti því hversu mikið hann þráði að komast heim til Eskifjarðar í faðm fjölskyldunnar og tjáir það hve mikið hann þrái að lifa. Í bréfinu sem hér birtist má sjá eina slíka ósk:

Mig hefur aldrei langað eins mikið til þess að lifa eins og nú.

hefur Sigurður skrifað beint yfir merki kanadíska hersins sem var á bréfsefninu sem honum hefur verið úthlutað. Um 140 íslenskir hermenn dóu í stríðinu eða hurfu sporlaust og rúmlega 200 særðust. Sigurður var einn af þeim sem komst aftur heim til Hayland í Manitoba og heimsótti hann Ísland árið 1921. Hann varð fjörgamall eða 97 ára. Bréfin sem hann skrifaði til móður sinnar og fleiri ættingja, sem og bréf annarra hermanna sem varðveist hafa, eru mikilvægur vitnisburður um þessa umbrotatíma.

Bréf Sigurðar Johnsen á bréfsefni kanadíska hersins.

Bréf Sigurðar Johnsen á bréfsefni kanadíska hersins.

Sigurður var hagmæltur og í bréf sem hann skrifaði í Frakklandi 1. júní árið 1918 var þessi vísa:

Mig langar til að lifa lengur,
og lifa eins og manni ber,
og væri aptur orðin drengur
þegar ég losna úr þessum her.

Texti: Helga Hlín Bjarnadóttir.

Heimildir
ÞÍ. Einkaskjalasafn E/99.2 (Bréf frá Sigurði Johnsen Kanada).
Jakob Þór Kristjánsson, Mamma, ég er á líf. Íslenskir piltar í víti heimsstyrjaldar. Reykjavík: Sögur útgáfa 2017.
Rögnvaldur Pétursson og Guttormur Guttormsson, Minningarrit íslenskra hermanna 1914-1918. Winnipeg: Félagið Jón Sigurðsson 1923.
Vestur-íslenskar æviskrár II. Benjamín Kristjánsson bjó undir prentun. Akureyri: Bókaforlag Odds Björnssonar 1964.

Þetta efni er frá Þjóðskjalasafni Íslands.