Vestmannaeyjar 1918

Norræni skjaladagurinn 2018

Vestmannaeyjar 1918

Vestmannaeyjar 1918

Myndin að ofan sýnir gosstrókinn frá Kötlu séðan frá Vestmannaeyjum, haustið 1918. Bjarnarey sést á miðri mynd. Lengst til hægri er íbúðarhúsið að Miðhúsum (vestri). Eystri-Miðhús voru einnig til, tómthús sem að stóð nokkru austar. Í niðurgirðingunni svokölluðu voru þrjár jarðir, Gjábakki, Miðhús og Kornhóll. Miðhús var yngst þessara jarða, talin tvö kýrfóður. Jörðin hafði 15 sauða beit í Elliðaey á sýnum tíma. Miðhús fóru undir hraun í gosinu 1973. Næst kemur jörðin Kornhóll eða Höfn. Jörðin var talin elst af Elliðaeyjarjörðunum og átti slægjur á Norðurflötum í Elliðaey. Kornhóll var kölluð Höfn fram á 17. öld, en þá var nafnið Kornhóll tekið upp. Kornhóll var tvö kýrfóður. Lengst til vinstri er hið forna virki Skansinn, við höfnina í Vestmannaeyjum. Hann var upphaflega reistur árið 1586 til að verja dönsku konungsverslunina gegn ágangi enskra kaupmanna og útgerðarmanna. Þegar komið var fram á 17. öld minnkaði sjósókn Englendinga, en þá þurftu Vestmannaeyingar á vörn að halda gegn sjóræningjum. Herfylking Vestmannaeyja var svo stofnsett um miðja 19. öld til varnar sjóræningjum og fóru æfingar fram á Skansinum. Breska setuliðið í Eyjum hafði svo bækistöð á Skansinum í seinni heimsstyrjöldinni. Suður hluti Skansins fór undir hraun í gosinu 1973, en norðurhlutinn stendur enn. Úr fórum Gísla J. Johnsen, stórkaupmanns.

 

Árið 1918 var merkisár í sögu Vestmannaeyja. Vestmannaeyjar urðu þá kaupstaður að lögum, en lög um bæjarstjórn Vestmannaeyja voru samþykkt á Alþingi þann 22. nóvember árið 1918. Lögin tóku svo gildi frá 1. janúar 1919 og fyrsti fundur nýkjörinnar bæjarstjórnar var haldinn 14. febrúar 1919.

Fyrsta blaðsíðan í fyrstu fundargerð bæjarstjórnar Vestmannaeyja frá 14. febrúar 1919.

Fyrsta blaðsíðan í fyrstu fundargerð bæjarstjórnar Vestmannaeyja frá 14. febrúar 1919.

Vestmannaeyjar höfðu breyst úr sjávarþorpi með um það bil 550 íbúa árið 1860, í kaupstað með 2033 íbúa 1918. Þessu hafði 12 ára vélbátaútgerð áorkað, en vélbátaútgerðin hófst árið 1906.

Vestmannaeyjar 1915

Þorpið í Vestmannaeyjum í kringum 1915. Tökutími er áætlaður út frá eftirfarandi húsum sem að þekkjast á myndinni. Ás byggt 1903, Ásbyrgi byggt 1912, Breiðablik byggt 1908, Garðhús byggt 1906, Hóll byggt 1907-1908, Kirkjuhvoll byggt 1911, London byggt 1906, Staðarfell byggt 1912, Valhöll byggt 1911. Á myndinni sést að ekki er byrjað að byggja Barnaskólann en það var gert 1917-1918.

Byggðin var sambland af sjávarþorpi og sveit. Húsin voru 250, flest lítil timburhús og lítið fjós og lítil hlaða á baklóðinni. Híbýli voru víðast hvar þröng og húsnæðisvandræði gífurleg. Fyrsta steinhúsið sem að reist var í Vestmannaeyjum var Stórhöfðavitinn, byggður 1906. Síðan voru fyrstu steinsteyptu húsin í kaupstaðnum reist árið 1911, Valhöll, símstöðin og Lögberg. Fiskimjölsverksmiðjan, sú fyrsta á Íslandi var reist 1912-13.

Verslunin Edinborg (í eigu Gísla J. Johnsen, stórkaupmanns). Matstofan, Goodhaab. Stakkstæði með sólþurrkuðum saltfisk. Úr fórum Gísla J. Johnsen, stórkaupmanns.

Verslunin Edinborg (í eigu Gísla J. Johnsen, stórkaupmanns). Matstofan, Goodhaab. Stakkstæði með sólþurrkuðum saltfisk. Úr fórum Gísla J. Johnsen, stórkaupmanns.

Íbúðarhúsin voru byggð skipulagslaust og voru flest lítil. Í undirbúningi var að reisa 28 ný hús en skipulag og byggingarsamþykkt vantaði. Öflun vatns til daglegs brúks var sífellt vandamál, enda lítið vatn að finna í Eyjum og vatni safnað af þökum í brunna til ársins 1968.

Vegir í plássinu voru mjög slæmir. Hestvagnar voru afkastamestu flutningstækin, en handvagnar og hljólbörur til almennra nota. Lögð voru drög að komu fyrstu bifreiðarinnar til Eyja á árinu 1918. Það var svo sumarið 1919 sem að Maxwell-vörubíll kom með skipi frá Reykjavík. Eigandi var Eyþór Þórarinsson, kaupmaður og fleiri. Verð bílsins voru þrjú þúsund krónur. Fljótlega eftir komu bílsins til Eyja tók Oddgeir Þórarinsson, bróðir Eyþórs við sem ökumaður bílsins, en hann var handhafi fyrsta ökuskírteinis í Vestmannaeyjum.

Önnur mynd af starfsfólki við stakkstæði Gísla J. Johnsen, stórkaupmanns. Megnið af starfsfólkinu voru konur. Úr fórum Gísla J. Johnsen, stórkaupmanns.

Önnur mynd af starfsfólki við stakkstæði Gísla J. Johnsen, stórkaupmanns. Megnið af starfsfólkinu voru konur. Úr fórum Gísla J. Johnsen, stórkaupmanns.

Árið 1918 voru um 400 húsráðendur í Vestmannaeyjum, þar af 170 leigjendur, bæði fjölskyldumenn og einhleypir. Þetta ár fluttu 42 menn til Eyja, þar af 19 frá Rangárvallasýslu. Úr bænum fluttu 35. Börnin sem fæddust voru 81, en 52 dóu.

Bændur voru 28 (sumir sjómenn og útgerðarmenn einnig), vinnumenn 53, þó ekki allir hjú annarra, en langfjölmennustu stéttirnar voru útgerðarmenn, sjómenn og verkamenn. Verslanir voru 23 og allar í innlendri eigu.

Vélbátar voru 63 árið 1918, allir undir 12 rúmlestum, nema Ásdís, sem að var tæpar 14 lestir og talin með þilskipum. Afli þessarra báta voru 886.494 þorskar. Kaup háseta var 4-700 kr. á vertíðinni, í fáum tilfellum hærra. Enginn vélbátur bættist í flota Eyjamanna árið 1918.

Talsverður búskapur var í Eyjum árið 1918. Sauðfé var 1161, nautgripir 111 og hross 55 talsins. Tún voru 59 hektarar og töðufengur 3244 hestburðir. Matjurtargarðar voru 34.968 ferm. Kartöfluuppskera var var 163 tunnur og gulrófur 354 tunnur.

Fuglaveiðin var umtalsverð, sem fyrr og veiddust 68.320 lundar, 20.280 fýlungar og 159 súlur. Á árum áður, í fiskleysisárum, hélt fuglaveiðin og eggjatakan lífi í eyjaskeggjum.

Tímakaupið í Eyjum var 65 aurar árið 1918, útsvör voru alls kr. 47.875 og gjaldendur voru alls 472.

Híbýlakostur var bágborinn hjá almenningi. Fólk hafðist við í óhituðum vistarverum, oft mjög þröngum, en verst var þó að búa við skort á eldsneyti til matargerðar. Kol voru afar dýr, en hækkun á kolaverði hafði verið 1000% frá stríðsbyrjun 1914. Kolin voru skömmtuð, svo var einnig um sykur, steinolíu, smjörlíki og sement. Skortur var á kornvörum og kartöflum. Erfitt var að útvega olíu og salt handa útgerðinni.

Tveir drengir á hestakerru í garðinum við hús Gísla J. Johnsen, Breiðablik. Drengurinn til hægri er Gísli friðrik Johnsen (1906-2000), sonur Gísla J. Johnsen, fæddur 1906.

Tveir drengir á hestakerru í garðinum við hús Gísla J. Johnsen, Breiðablik. Drengurinn til hægri er Gísli friðrik Johnsen (1906-2000), sonur Gísla J. Johnsen, fæddur 1906.

Plágur ársins 1918 voru margar, í byrjun ársins voru miklar vetrarhörkur (frostaveturinn mikli), dýrtíð, vöruskortur og atvinnuleysi, en kaupgjald stóð í stað. Þann 12. október hófst Kötlugosið. Var það stórfengleg sjón , þegar eldsúlurnar stigu til lofts. Þykkt öskulag féll á suðurlandsundirlendið og langt á haf út. Í fyrstu var askan talin banvæn búpeningi, en svo reyndist ekki vera. Sjór var sléttur við Eyjar fyrir gosið, en flóðbylgja olli því út við Eyjar, í 40 sjómílna fjarlægð frá gosstöðvunum , að sjórinn varð ein ólgandi röst eins og í aftaka brimi.

Mest og verst var þó síðasta plágan, Spánska veikin, sem að barst til Íslands um mánaðarmótin október-nóvember 1918. Í Vestmannaeyjum létust 24 á tímabilinu 14. nóvember til 6. desember. Úr spönsku veikinni dóu 26 manns samkvæmt dánarskýrslum. Að megninu til var það ungt, hraust fólk.

En, árið 1918 hafði líka sínar björtu hliðar. Friður var saminn í Evrópu þann 4. nóvember. Og síðast enn ekki hvað síst þá var fullveldi Íslands viðurkennt með sérstökum sambandslagasamningi við Dani og Ísland varð sjálfstætt og fullvalda ríki í konungssambandi við Danmörku, þann 1. desember 1918. Þjóðaratkvæðagreiðslan um samninginn fór fram 19. október 1918. Á kjörskrá í Eyjum voru 624 og 461 greiddi atkvæði. 457 kjósendur sögðu já, 4 nei. Alls greiddu því 76,1% kjósenda í Eyjum atkvæði.

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafni Vestmannaeyja.