Árið 1918 gert upp

Norræni skjaladagurinn 2018

Árið 1918 gert upp

Ólafur Pálsson og Guðrún Ólafsdóttir.

Ólafur Pálsson og Guðrún Ólafsdóttir.

 

Í Héraðsskjalasafni Þingeyinga eru varðveittar dagbækur Ólafs Pálssonar bónda á Sörlastöðum í Fnjóskadal. Dagbækur hans ná yfir tímabilið 1900-1930.

Ólafur fæddist 17. október 1874 og lést 26. mars 1962. Kona Ólafs var Guðrún Ólafsdóttir. Ólafur var organisti, sat í sveitarstjórn og gegndi mörgum öðrum trúnaðarstörfum. Hann var bókgefinn maður og bókvís enda átti gott safn af innlendum og erlendum handritum um m.a. jurta- og dýrafræði, stærðfræði og eðlisfræði. Hann vandaði val sitt á lestrarefni, en þó gætti þar mikillar fjölbreytni. Var hann fús að miðla af þeim fróðleik, sem hann þannig ávann sér. Sagði hann vel frá, og á þann veg að festist í minni það, sem hann fór með hverju sinni. Ólafur var hneigður fyrir ættfræði og skáldskap og fékkst nokkuð við vísnagerð, einkum á fyrri árum.

Sýnishorn af skáldskap Ólafs.

Sýnishorn af skáldskap Ólafs.

Úr dagbók Ólafs 1918:

31. desember þriðjudagur
Grátt lopt og kyrrt veður um morguninn, en um hádegi kom suðvestan renningur, svo að ekkert var hægt að láta út, nema geiturnar þegar kyrrði. Frostið var um 4 stig um morguninn en var orðið hér um bil frostlaust um kvöldið. Við Friðþjófur létum sjóða síld í hey. Sigga gaf öllu fólkinu sætt kaffi með mörgum brauðtegundum fyrri part dagsins, nálægt kl kl. 4 borðuðum við allskonar mat: mjólkurgraut með kanel, sykri og rúsínum og saftblöndu, laufabrauð og pottbrauð, sperðil og magál, heitt saltkjöt og kartöflujafning. Um kvöldið var svo drukkið Chocolade og kaffi með mörgum brauðtegundum. Svo spiluðum við “Púkk” og “vist”. Þegar kl. var 12 las ég húslesturinn. Þetta ár hafði ég og mínir góða heilsu og ég varð ekki fyrir skepnu missi eða neinum tilfinnanlegum skaða fram yfir það sem menn almennt urðu vegna grasbrests og heyskemmda sem orsökuðust af haustrigningum. Þetta ár var mjög viðburðarríkt. Það kom Kötlugos, og þá kom inflúenzan, sem kölluð var spánska veikin til Suður- og Vesturlands og deyddi fjölda manns. Þá var samið vopnahlé á milli ófriðaþjóðanna eftir 4 löng og ströng styrjaldarár. Þá öðlaðist Ísland aftur sjálfstæði sitt eftir margra alda áþján og kúgun. Þá var grasleysi svo voðalegt um land allt að slíkt hafði ekki komið fyrir síðan á 15. öld. Geysi frosthörkur voru líka um veturinn eftir nýár, en vorið eitthvað það besta sem menn mundu einkum framanaf. Haustið og sumarið var mjög vont, en veturinn mjög mildur til nýárs og var víða ekki farið að hýsa fé fyrr en 7 vikur af vetri.

Heimildir
HérÞing. E-288/6 Ólafur Pálsson Sörlastöðum Fnjóskadal. Dagbækur Ólafs, um 28 bækur.
Jórunn Ólafsdóttir. (1976). Árbók Þingeyinga. Akureyri: Prentverk Odds Björnssonar hf.

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafni Þingeyinga.