Flateyingar verjast Spænsku veikinni

Guðmundur Björnsson landlæknir var í kröppum dansi á haustdögum 1918. Spænska veikin hafði numið land, að því talið er 19. október og fljótlega fór fólk veikjast og deyja. Sýkin var hins vegar bundin við Reykjavík og nágrannabyggðir. Fljótlega eftir að almenningur gerði sér grein fyrir því hversu alvarleg veikin var vildu margir að ferðir um landið yrðu takmarkaðar og stærstur hluti landsins yrði því í einhvers konar sóttkví. Guðmundur var hins vegar efins um að takmarkanir ferðalaga milli landshluta væru réttlætanlegar og rökstuddi það meðal annars í blaðagreinum í Morgunblaðinu 29. október til 3. nóvember. Þetta viðhorf Guðmundar sætti mikilli gagnrýni og gripu héraðslæknar og sýslumenn til aðgerða, þrátt fyrir viðhorf landlæknis.
Þann 12 nóvember ritaði héraðslæknirinn í Flatey, Magnús Snæbjarnarson, bréf til landlæknis þar sem hann tilkynnti að þrátt fyrir þessa skoðun landlæknis hefði hann sett sóttkví á Flatey og aðrar eyjar á Breiðafirði sem tilheyrðu eyjahluta læknishéraðsins. Magnús tilkynnti að það hefði verið gert með svohljóðandi auglýsingu:
Vegna sjerstakra staðhátta í þessu hjeraði tel jeg ekki frágangssök að reyna að sporna við því, að hin illkynjaða kvefpest, er nú geysar í Reykjavík og grend, flæði yfir oss. Veikinni verður ekki varað að flæði yfir oss, nema, vjer í tíma, meðan veikin enn eigi er komin í aðliggjandi hjeruð, einangrum oss, slítum sambandinu við nágrannasveitirnar nokkrar vikur. Þetta vil jeg nú gera tilraun með, reyna að hepta veikina um eyjahluta Flateyjarhjeraðs, og vænti jeg að allir hjeraðsbúar skilji nauðsyn þessa máls og vilji styðja að því að tilraunin geti lánast, því mikið er við það unnið.
Samkvæmt sóttvarnarlögum banna jeg því hjermeð allar samgöngur frá og til eyja hluta Flateyjarhjeraðs – sem er Flateyjarhreppur, Rauðeyjar og Rúfeyjar -, engar ferðir mega gerast milli þessa svæðis og annara byggða nema með mínu sjerstöku samþykki.
Bann þetta gildir frá 13. degi nóv. og áfram þar til landlæknir og stjórnarráð hafa látið mjer í tje álit sitt um þetta og samþykkt þessa ráðstöfun eða hafnað henni. Þangað til hefur bannið fullt löglegt gildi. Brjóti nokkur bannið, verður hann látinn sæta fullri ábyrgð samkvæmt lögum.
Flatey 12. nóv 1918
Hjeraðslæknirinn í Flateyjarhjeraði
Magnús Snæbjarnarson
Niðurstaða málsins var að bann Magnúsar var látið halda. Sama gerðist víðs vegar um landið. Héraðslæknar gripu til aðgerða og er enginn vafi á því að snarræði þeirra hafi orðið til þess að bjarga mörgum frá dauða.
Heimild
ÞÍ. Landlæknir: Bréf til landslæknis C/30.
Þetta efni er frá Þjóðskjalasafni Íslands.